2014 Ljóðabók Flæðarmál
Innsæið, útsærinn í mér, það hamrar, fer ekkert, stoppar ekki og það sagði mér sláttur, þéttur, þýða, þíða upp tunguna, það sagði að allt væri gott sem kæmi úr sjónum og ég vissi og ég sá og ég horfði á tauma sem líða inn og ég veit en gættu að þér, vont er að heyra of mikið því ég hef rennt mér yfir spegilsléttan sjó úr gleri og ég var þarna og ég sá það og það var of hættulegt, þó jafnvægið brjóti oddinn og þér finnist þú vera blindur og það komi ekkert upp úr skúffunni, því þar er ekkert, þar er aðeins minning, það á að vera girt en það má rofa og þú mátt kíkja en jafnvægið er engin list og ég óska engum frelsis, skoðaðu til skiptis aftur það sama, ég hef aldrei séð neitt sem er spegilslétt, ekki einu sinni krumpað, kannski örfína línu sem teiknuð var aftur.